Ævintýri

Það er einhver æð í bókmenntum þessa dagana – kannski fyrst og fremst angló bókmenntum, en mér finnst ég líka merkja eitthvað svipað hjá suður-amerískum höfundum – sem gengur út á að taka sígild ævintýri og vinna með þau á nýjan hátt.

Fyrsta svona bókin sem ég man eftir að hafa séð er Wicked eftir Gregory Macguire frá 1995, sem varð síðar að geysivinsælum Broadway-söngleik. Mér áskotnaðist bókin einhvern tíma um aldamótin og las helminginn en hún náði mér ekki, þótt premisan heillaði mig: Galdrakarlinn frá Oz, sagður frá sjónarhóli vondu vestannornarinnar.

Síðan hef ég ekki tölu á hvað ég hef séð margt með svipaðri premisu, bækur en líka sjónvarpsþætti og myndir – Disney-myndirnar Maleficent (2014) og Cruella (2021) sýna okkur t.d. sjónarhorn illmennanna úr Þyrnirós og 101 dalmatíuhundi.

Á sama tíma hafa streymt fram bækur sem segja grískar goðsögur frá nýjum sjónarhóli. Söngur Akkilesar og Circe eftir Madeleine Miller fremstar í flokki. Á árunum 2005 til 2013 (og kannski lengur) gaf Canongate út metnaðarfulla ritröð undir heitinu Myths, þar sem þekktir höfundar unnu með goðsagnir úr ýmsum áttum. Ein af fyrstu bókunum í þeirri röð var Penelópukviða eftir Margaret Atwood sem kann að hafa hrundið þessu æði af stað.

En kannski er þetta líka eitthvað einkennandi fyrir okkar tíma, þessi endalausa úrvinnsla og endursögn. Kannski tengist þetta öllum franchise kvikmynda-heimunum, þar sem allt snýst ennþá um áratuga gamlar ofurhetjur. En kannski ekki.

Ég er ekki bókmenntafræðingur og engan veginn nógu vel að mér til að greina þróunina almennilega. Þetta eru bara sundurlausar hugsanir um þráð sem mér finnst áhugaverður.

Angela Carter er líklega frumkvöðullinn í þessari bókmenntagrein. Hennar sögur komu út á áttunda og níunda áratugnum. Margaret Atwood hefur sömuleiðis unnið með ævintýri í smásögum og gjarnan sett á þau einhvers konar femínískt spin. Ég er án efa að horfa fram hjá alls konar fantasíuhöfundum líka, enda er ég helst að hugsa um commercial mainstream og fagurbókmenntir.

Og þar virðist þessi bylgja vera í gangi svona um það bil síðustu tíu til fimmtán árin. Og þar er líka eitthvað annað og áhugaverðara í gangi en bara einfaldur femínískur viðsnúningur á gömlu sögunum. Einhver flóknari úrvinnsla. Meira meta, það er meiri húmor í gangi, meiri meðvitund um formið, samruni ævintýraminna við samtímasögur er frumlegri og galsafyllri.

Með því fyrsta sem ég las í þessum dúr var smásagan The Husband Stitch eftir Carmen Maria Machado sem kýldi mig kalda þegar ég las hana á netinu svo ég fór beint og pantaði smásagnasafnið Her Body and Other Parties.

Í kjölfarið las ég síðan smásagnasöfn Karen Russell og Kelly Link, sem mér sýnast hafa náð einhvers konar hápunkti í þessari bókmenntagrein.

Happily eftir Sabrinu Orah Mark, upphaflega pistlaröð í Paris Review, sem ég var orðin vön að bíða í eftirvæntingu, tekur örlítið annan vinkil og blandar ævintýrum við óskáldað í esseyjum sem eru ýmist persónulegar, pólitískar eða hvort tveggja, á stórfenglega heillandi hátt.

Eftir einhverjum leiðum fann ég síðan Helen Oyeyemi, breskan höfund af nígerískum uppruna, búsett í Prag, sem fer á einhvern alveg nýjan, skrítinn, dularfullan og dálítið erfiðan stað með þessa blöndu ævintýra og raunsæis. Hún er kannski einna torræðasti en líka mest spennandi höfundurinn í þessum hópi – að minnsta kosti þeim sem ég hef þegar kynnst, því ég efast ekki um að ég eigi eftir að finna ýmsa fleiri þegar ég þræði mig lengra eftir þessum brauðmolastíg.

Einhverra hluta vegna eru þessir höfundar yfirleitt að vinna með smásöguna (ævintýri eru auðvitað smásögur í grunninn) og yfirleitt konur.

Ég er með dálítið blendnar tilfinningar gagnvart þessari bókmenntagrein, eða æð. Þetta er eins og stígur sem auðvelt er að villast út af, auðvelt fyrir höfunda að detta í sjálfumgleði eða flatneskju og yfirborðsheit. Hvað ef – vonda nornin var bara misskilin! Það er það sem Siggi Páls hefði kallað jógúrt í ljóðlist. Sniðug hugmynd í eitt skipti en svo er hún bara búin. Það er kannski ástæðan fyrir því að ég hef aldrei farið alla leið inn í að skrifa svona sögur þótt mig langi til og hafi daðrað við það.

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on May 20, 2024 10:05
No comments have been added yet.