Þórdís Helgadóttir's Blog

July 25, 2025

Viðtal í Endastöðinni

Í gær birtist viðtal við mig í Endastöðinni á Rás 1. Ég talaði vítt og breitt við Unu Schram um bókmenntir, mín eigin verk og ekki síst ástríðuverkefnið mitt Stelk, sem er eina íslenska bókmenntatímaritið helgað smásögum.

Hlustaðu hér til að komast að því hvers vegna smásagan er hið fullkomna bókmenntaform, heyra mig lesa upp úr sögunni minni Hamur og tala um vistkerfi og heimsslitasögur eins og venjulega. BÓNUS: Hér er hulunni í fyrsta skipti svipt af nýrri skáldsögu sem væntanleg er með haustinu.

Ef þið hafið enn ekki tékkað á Stelk þá eigið þið gott í vændum. Við ritstjórarnir, ég og Kári Tulinius, vorum að senda frá okkur sjöunda tölublað og sarpurinn er hrein og klár gullkista af frumbirtum sögum eftir marga okkar bestu og áhugaverðustu höfunda, sem hvergi er að finna annars staðar. Stelk má lesa hér.

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on July 25, 2025 09:38

June 22, 2025

Ljóslínur

Hátíðarávarp Fjallkonunnar á Austurvelli, 17. júní 2025

Katrín Halldóra Sigurðardóttir flytur ávarpið í hlutverki Fjallkonunar

Ljóslínur

Út

í birkiilm
eftir vetursetu

Ljósið í brjósti okkar
er júníbirta

Kitlið í maganum
kemur frá jörðinni
Hún er parísarhjól
og við, í augnablikinu,

í augnhæð við fjöllin

Upp
og út

*

Kitlið í maganum
af því að hjörtu okkar eru ungviði
og sérhver hátíð er hátíð barnanna
Jibbí – ég meina það – jey!

Upp
í brekkur og út á torg
Við blöndum geði
í nýjum hlutföllum
Bara í sumar! Nýtt!

Blöndumst
við uppáhalds og óþolandi
annað fólk
Við
öll

*

Skóflum rjómabólstrum
úr blámanum
bítum í vöffluhjarta með sultu

Það vex rabarbari í bakgarðinum – hann er vonin

Fyrstur upp á vorin
þegar nágranninn gefur okkur hnaus
Vonin er viðleitni

Von
er vinna

*

Þetta man fjallakelling
meðan allt liggur í dvala

Rótföst í hraunbreiðu
trú hennar
á okkur

Stolt, jú
af stórvirkjum

en mest af mildi
og mennsku

Þannig eru mömmur
Sérsvið þeirra
skjöldur og skjól

*

Hún man okkur máttvana
og mjúkhöfða
Hjálparlófi um litla hönd
meðan heilt þorp hélt undir

Gerði brjóst okkar þannig úr garði
að það rúmar
sólarhringssól
og sorgir heimsins
ef við leggjum þau
saman

Allar mömmur
eiga
öll börn

*

Út

Bröltum berfætt í móa,
vöðum læki, berjablá

Á sólstöðum
sigrar ekkert ljósið

Nóttin breiðir bleikt þel úr birtu
yfir brúnjörð og mójörð
og margvísa landsins mold

Við erum börn þegar við sofum
með mosa á milli tánna

Hjörtun ung og varnarlaus
opin
fyrir ljósi

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on June 22, 2025 09:57

February 27, 2025

ARMELÓ tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Og ég er bara ógurlega stolt og glöð og þakklát með þetta allt saman.

Dómnefndin segir meðal annars:

Þórdís býður lesendum upp í trylltan dans og þeytir þeim í óteljandi hringi þar sem hún ögrar skynjuninni með óvæntum rangölum, ólíkum sjónarhornum mismunandi sögupersóna, skemmtilegu tímaflakki og fjölskrúðugu persónugalleríi. Í bland við góðan húmor, ljóðrænan stíl, yfirnáttúrulega fléttu og sterkt myndmál skapar Þórdís einstaklega hrífandi rússíbanareið fyrir forvitna og hugrakka lesendur.

Umsögnin í heild sinni á Norden.org

1 like ·   •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on February 27, 2025 13:57

February 26, 2025

ARMELO out in Danish

A Danish translation of Armelo by Nanna Kalkar was published by Turbine in Denmark on February 14, 2025.

Check it out HERE.

2 likes ·   •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on February 26, 2025 04:18

May 20, 2024

Ævintýri

Það er einhver æð í bókmenntum þessa dagana – kannski fyrst og fremst angló bókmenntum, en mér finnst ég líka merkja eitthvað svipað hjá suður-amerískum höfundum – sem gengur út á að taka sígild ævintýri og vinna með þau á nýjan hátt.

Fyrsta svona bókin sem ég man eftir að hafa séð er Wicked eftir Gregory Macguire frá 1995, sem varð síðar að geysivinsælum Broadway-söngleik. Mér áskotnaðist bókin einhvern tíma um aldamótin og las helminginn en hún náði mér ekki, þótt premisan heillaði mig: Galdrakarlinn frá Oz, sagður frá sjónarhóli vondu vestannornarinnar.

Síðan hef ég ekki tölu á hvað ég hef séð margt með svipaðri premisu, bækur en líka sjónvarpsþætti og myndir – Disney-myndirnar Maleficent (2014) og Cruella (2021) sýna okkur t.d. sjónarhorn illmennanna úr Þyrnirós og 101 dalmatíuhundi.

Á sama tíma hafa streymt fram bækur sem segja grískar goðsögur frá nýjum sjónarhóli. Söngur Akkilesar og Circe eftir Madeleine Miller fremstar í flokki. Á árunum 2005 til 2013 (og kannski lengur) gaf Canongate út metnaðarfulla ritröð undir heitinu Myths, þar sem þekktir höfundar unnu með goðsagnir úr ýmsum áttum. Ein af fyrstu bókunum í þeirri röð var Penelópukviða eftir Margaret Atwood sem kann að hafa hrundið þessu æði af stað.

En kannski er þetta líka eitthvað einkennandi fyrir okkar tíma, þessi endalausa úrvinnsla og endursögn. Kannski tengist þetta öllum franchise kvikmynda-heimunum, þar sem allt snýst ennþá um áratuga gamlar ofurhetjur. En kannski ekki.

Ég er ekki bókmenntafræðingur og engan veginn nógu vel að mér til að greina þróunina almennilega. Þetta eru bara sundurlausar hugsanir um þráð sem mér finnst áhugaverður.

Angela Carter er líklega frumkvöðullinn í þessari bókmenntagrein. Hennar sögur komu út á áttunda og níunda áratugnum. Margaret Atwood hefur sömuleiðis unnið með ævintýri í smásögum og gjarnan sett á þau einhvers konar femínískt spin. Ég er án efa að horfa fram hjá alls konar fantasíuhöfundum líka, enda er ég helst að hugsa um commercial mainstream og fagurbókmenntir.

Og þar virðist þessi bylgja vera í gangi svona um það bil síðustu tíu til fimmtán árin. Og þar er líka eitthvað annað og áhugaverðara í gangi en bara einfaldur femínískur viðsnúningur á gömlu sögunum. Einhver flóknari úrvinnsla. Meira meta, það er meiri húmor í gangi, meiri meðvitund um formið, samruni ævintýraminna við samtímasögur er frumlegri og galsafyllri.

Með því fyrsta sem ég las í þessum dúr var smásagan The Husband Stitch eftir Carmen Maria Machado sem kýldi mig kalda þegar ég las hana á netinu svo ég fór beint og pantaði smásagnasafnið Her Body and Other Parties.

Í kjölfarið las ég síðan smásagnasöfn Karen Russell og Kelly Link, sem mér sýnast hafa náð einhvers konar hápunkti í þessari bókmenntagrein.

Happily eftir Sabrinu Orah Mark, upphaflega pistlaröð í Paris Review, sem ég var orðin vön að bíða í eftirvæntingu, tekur örlítið annan vinkil og blandar ævintýrum við óskáldað í esseyjum sem eru ýmist persónulegar, pólitískar eða hvort tveggja, á stórfenglega heillandi hátt.

Eftir einhverjum leiðum fann ég síðan Helen Oyeyemi, breskan höfund af nígerískum uppruna, búsett í Prag, sem fer á einhvern alveg nýjan, skrítinn, dularfullan og dálítið erfiðan stað með þessa blöndu ævintýra og raunsæis. Hún er kannski einna torræðasti en líka mest spennandi höfundurinn í þessum hópi – að minnsta kosti þeim sem ég hef þegar kynnst, því ég efast ekki um að ég eigi eftir að finna ýmsa fleiri þegar ég þræði mig lengra eftir þessum brauðmolastíg.

Einhverra hluta vegna eru þessir höfundar yfirleitt að vinna með smásöguna (ævintýri eru auðvitað smásögur í grunninn) og yfirleitt konur.

Ég er með dálítið blendnar tilfinningar gagnvart þessari bókmenntagrein, eða æð. Þetta er eins og stígur sem auðvelt er að villast út af, auðvelt fyrir höfunda að detta í sjálfumgleði eða flatneskju og yfirborðsheit. Hvað ef – vonda nornin var bara misskilin! Það er það sem Siggi Páls hefði kallað jógúrt í ljóðlist. Sniðug hugmynd í eitt skipti en svo er hún bara búin. Það er kannski ástæðan fyrir því að ég hef aldrei farið alla leið inn í að skrifa svona sögur þótt mig langi til og hafi daðrað við það.

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on May 20, 2024 10:05

December 3, 2021

November 26, 2021

Hugvíkkandi og fersk

„Tónninn í Tanntöku er ferskur, nýstárlegur og uppfullur af hugvíkkandi myndum og líkingum. “ – RSS Lestrarklefanum

Mikið sem ég er meyr og þakklát fyrir þennan fallega dóm um Tanntöku sem birtist í Lestrarklefanum á dögunum.

https://lestrarklefinn.is/2021/11/16/nutimalegur-og-nystarlegur-tonn/
 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on November 26, 2021 03:50

October 21, 2021

GOÐAFRÆÐI HVERSDAGSINS

Kraftmikið og marglaga verk sem skapar ljóðrænu úr óvæntum áttum og ljáir hversdagslegum athöfnum dulrænt goðmagn. – ÞSH Fréttablaðinu

Ákaflega fallegur dómur um Tanntöku í Fréttablaði dagsins. Ég þakka fyrir mig.

https://www.frettabladid.is/lifid/goafri-hversdagsins/

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on October 21, 2021 15:29

January 24, 2021

Ljóðstafur Jóns úr Vör

Lukkuleg Þórdís Helgadóttir tók í gær við Ljóðstaf Jóns úr Vör við athöfn í Salnum í Kópavogi. „Þetta er mikill heiður,“ sagði hún, „að fá svona vegleg verðlaun fyrir stakt ljóð.“Mynd: Árni Sæberg fyrir Morgunblaðið

Fimmtudaginn 21. janúar 2021, á afmælisdegi Jóns úr Vör, tók Þórdís við Ljóðstafnum fyrir sigurljóðið Fasaskipti.

Nánar:

Þórdís Helgadóttir hlýtur Ljóðstaf Jóns úr Vör

Verðlaunaljóð um börn og vetur

Þórdís hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir Fasaskipti

LESA FASASKIPTI

2 likes ·   •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on January 24, 2021 05:27

December 1, 2020

FRÆ FYRIR NORNINA

Í samtali við Sabrinu Orah Mark





[image error] mynd: eol.org



Við erum að taka til í geymslunni þegar börnin mín finna segulbandstæki sem tekur upp hugsanir. Þau snúa því á alla kanta. Þetta er í fyrsta skipti sem þau sjá segulband. Þau spyrja hvort þau megi eiga það. Sjálfsagt, segi ég. Það eru hvort sem er ekki lengur neinar spólur. Þau vilja eiga alla hluti. Þau eru litlir hamstrar sem keppast við að fylla holurnar sínar. Veturinn kom í dag.





Það hanga hvítar flygsur í loftinu. Það er augljóst hvað það þýðir. Ég hef lifað á jörðinni í næstum því fjörutíu ár. Ég hef séð alla þættina. Við erum in the upside down. Við erum handan við heimsendi. Inn í hellinn og út í kjarnorkuveturinn.





Mamma, það snjóar!





Dóttir mín lygnir aftur augunum og óskar sér hvítra jóla. Sonur minn krefst þess að ég segi honum hvort jólin verði hvít. Ég veit það ekki, segi ég. Gáðu, svarar hann og bendir á símann. Ég útskýri að veðurfræðingarnir geti ekki sagt okkur hvað gerist eftir mánuð. Bara hvað gerist á morgun, segi ég. Eða eftir tuttugu ár, segi ég ekki.





Ég set á þau vettlinga, húfur og ofurlitla bakpoka. Þau rífa af sér vettlingana um leið og þau koma út. Moka snjónum beint upp í munn með litlum rauðum höndum. Munið að borða bara hreinan snjó! kalla ég á eftir þeim. Eins og ég hef kallað á eftir þeim alla snjódaga síðan þau fæddust. Orðin hringla í bakpokunum þeirra. Annars eru þeir næstum tómir.





Vasilísa hin fagra er söguhetjan í samnefndu rússnesku ævintýri úr þjóðsagna- og ævintýrasafni Alexanders Afanasjev sem hann tók saman á árunum 1855 til 1863. Í ævintýrinu fer Vasilísa út í skóg til að sækja eld fyrir heimilið og kemur að húsi nornarinnar Baba Yaga. Nornin lofar henni eldinum gegn því að hún flokki hrauk af hirsi í skemmd og óskemmd grjón og hrauk af birkifræjum og baunum í sundur. Þetta er ómögulegt verkefni og Vasilísa leysir það með hjálp móður sinnar. Sem er dáin. Mömmur í ævintýrum eru alltaf dánar. Þetta hefur ekki farið fram hjá dóttur minni. Hún heldur niðri í sér andanum hvenær sem við kveikjum á Disney-mynd.





Dóttir mín er níu ára. Á hverjum degi þarf ég að vanda mig til að ruglast ekki á henni og mér. Ég á stundum erfitt með að muna hver ég er. Ég hef velt því fyrir mér að láta tattúvera eitthvað á framhandlegginn á mér en um leið og ég tek upp símann til að panta tíma er ég ekki lengur viss um hvað það ætti að vera. Svona er ég gleymin. Ég hef gleymt því hvernig það var að ganga með börnin. Á meðan ég gekk með þau gleymdi ég að ég hafði fram að því verið eini íbúinn í líkama mínum. Núna man ég ekki lengur hvernig húsið okkar var áður en það fylltist af litlu fólki. Það var þess vegna sem ég smíðaði segulbandstækið.





Ég var níu ára þegar ég tók eftir því að ég var með færiband í höfðinu. Nýjar hugsanir streymdu hjá og ruddu hinum eldri í burtu áður en mér gafst færi á að skoða þær. Þær héngu saman á örmjóum þræði augnabliksins sem slitnaði þegar þær steyptust fram af brúninni og svifu ofan í tómið, hvítar flygsur. Ég smíðaði tækið í viðleitni til að safna mér saman, ná utan um mig. Tækið gat tekið upp og varðveitt hverja einustu hugsun.





Auðvitað varð það mér aldrei að gagni. Spólurnar hrúguðust upp í stóra hrauka sem hrundu undan eigin þunga og skriðu eftir svefnherbergisgólfinu. Eina leiðin til að finna hugsun aftur var að hlusta í rauntíma og þá var ég um leið komin í upptökuskuld. Ég hætti á endanum að taka upp. Að finna segulbandið aftur minnti mig á allt sem er í sífellu að glatast. Með nútímatækni væri kannski hægt að hlaða öllu inn í gagnagrunn sem gæti flokkað og raðað og flett hraðar en mannshugurinn.





Minnisglöp eru eitt af einkennum þunglyndis. Þegar ég man það þá get ég setið og beðið og treyst ferlinu. Ég er sterk þótt ég muni það ekki. Ég er elskuð þótt ég muni það ekki. Ég elska þótt ég muni það ekki. Treystið ferlinu. Ég set orðin á góðan stað. Seinna ætla ég að lauma þeim ofan í bakpoka barnanna minna.





Einu sinni gleymdi ég því í tíu ár að ég elskaði bækur. Samt gerði ég mér far um að heimsækja bókabúðir, því stærri því betra, og örvænti eins og Vasilísa frammi fyrir offlæðinu. Allt sem ég elska hefur þessa tilhneigingu, að umbreytast yfir í ómögulegt verkefni sem ég þarf að leysa fyrir dögun eða verða étin af norn.





Þegar börnin koma aftur inn rannsaka ég andlitin til að vera viss um að þau hafi sorterað snjókornin frá svifrykinu. Þau eru með eplakinnar og stirnd augu. Þau hafa beðið eftir þessu svo lengi.





Á dánarbeðinum gaf mamma Vasilísu henni brúðu. Í hvert skipti sem stúlkan þurfti leiðsögn brást brúðan við í vasanum og þannig vissi Vasilísa hvað rétt væri að gera. Hverjum hún ætti að treysta, hvenær hún ætti að spyrja og hvenær væri hyggilegast að þegja. Hvenær tími væri kominn til að ögra norninni. Þegar hún grét frammi fyrir hinum ómögulegu verkefnum sagði dúkkan henni að óttast ekkert og kallaði til fugla himinsins til að flokka fræin.





Minnið um ómögulegu verkefnin skýtur upp kollinum aftur og aftur í ævintýrum, frá Öskubusku til Rumputuska. Eitt elsta tilvikið er frá annarri öld eftir Krist í sögu Apúleiusar um Kúpíd og Psýkku. Þar er það Venus sem skipar hinni saklausu stúlku að flokka í sundur hveitifræ, bygg, birkifræ, kíkertur, linsur og baunir. Í þessari útgáfu eru það ekki fuglar sem koma til hjálpar heldur maurar.





Þegar ég lygni aftur augunum þá óska ég þess að geta verið dómgreind í svuntuvasa eftir að ég dey. Eða til vara að gefa börnunum mínum eimaða visku kynslóðanna, þennan harða kjarna sem sumir virðast hafa fengið frá formæðrum sínum í gegnum ömmur og mömmur og svo framvegis og gerir þeim kleift að leysa ómögulegu verkefnin í myrkrinu á leiðinni að sækja eldinn.





Stærsti óttinn minn er að vera ómögulegt verkefni sjálf. Alla morgna vakna ég inn í nýjan veruleika. Það er gul viðvörun. Flygsurnar af sjálfri mér sem ég sópaði saman í gær hafa feykst í allar áttir. Ég er með fjórtán þúsund flipa opna í tölvunni, einn fyrir hvern dag sem ég hef lifað á jörðinni. Ég loka tölvunni og hita mjólk fyrir kakó.





Hvað kemur á eftir vetrinum? spyr sonur minn. Auðvitað vorið, segir systir hans. Það kemur á hann áhyggjusvipur. Hann var að læra um árstíðirnar í skólanum. Vorið er fyrsta árstíðin, segir hann. Veturinn er síðastur. Það kemur ekkert á eftir vetrinum. Ég finn ekki orðin til að útskýra að allt fari í hring.





Þau tala hvort í kapp við annað. Ég leitast við að vera hinn sanngjarni fundarstjóri, gef öðru þeirra orðið og svo hinu. En þau hafa beðið svo lengi. Heilan vetur. Þegar röðin kemur að þeim aftur er það of seint. Þau muna ekki hvað þau ætluðu að segja og bráðna úr gremju.





Mig langar að væla með þeim. Mig langar að segja þeim að þegja. Í staðinn segi ég, mamma þeirra: Hlustið. Það glatast ekkert sem skiptir máli. Hugsanirnar ykkar eru eins og litlu maurarnir sem feta sig í gegnum skóginn. Þeir eru ekki á færibandi heldur elta þeir ósýnilega lyktarslóð, svo hverfa þeir ofan í holu og koma aftur sömu leið. Ef þið náið þeim ekki núna þá náið þið þeim næst. Það fundust engir hraukar af upptökum með segulbandstækinu í geymslunni því ég henti þeim, daginn sem ég komst að því að það var það sama á öllum spólunum.





Ég renni frá bakpokunum þeirra til að setja þessa hugsun ofan í, áður en ég gleymi henni. En það er ekkert pláss. Bakpokarnir eru stappfullir af könglum og fagurlega lituðum smásteinum, grenigreinum. Gersemum sem börnin mín fundu úti.





Dagarnir eru gloppóttir. Nærðu utan um þig? spurði ég manninn minn fyrir svefninn í gær. Nei, sagði hann. Hver gerir það? Þegar ég vaknaði hafði náttúran gengið í lið með mér. Það var kominn vetur. Ég gleymi því á hverju ári en undantekningalaust kemur dagur um miðjan nóvember þar sem fyrsta froststillan drepur síðustu sumarblómin og allt verður skýrt.





Ég sé það núna að hvítu flygsurnar í loftinu eru ekki snjókorn heldur högl. Það er ekkert hægt að búa til úr þeim. Kringlóttar agnir staflast ekki. En börnunum mínum er sama. Þau hafa beðið svo lengi. Þau vissu nákvæmlega hvað þau ætluðu að byggja og þegar ég lít út í bakgarðinn sé ég borg.





Bakpokinn minn er tómur. Ég helli kakóinu á brúsa og smyr rúnnstykki með birkifræjum. Pakka því öllu niður. Börnin koma á eftir mér og saman rekjum við slóðirnar þeirra, örlítil fótspor í hvítunni.

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on December 01, 2020 08:20